Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ekki sama hvaðan sannleikinn kemur?

Eva Joly var í mögnuðu viðtali í Silfri Egils. Þar sagði hún það sem ég held að flestum finnist, nefnilega að það verði að ráðast í að rannsaka þessi mál, gera húsleitir og þar fram eftir götum. Þetta þýðir að frysta verður eignir þessara manna og hafa samband við erlenda aðila um rannskókn. En byrja verður hér heima, eins og hún benti réttilega á. Þetta er kona sem hefur marga fjöruna sopið í slíkum málum og ljóst er að hennar starf hefur jafnvel verið henni lífshættulegt, enda hefur hún þurft lífverði.

En það varð uppi fótur og fit þegar VG ræddi um að rannsaka og frysta í tengslum við þetta allt. Þá snerust Sjálfstæðismenn öndverðir gegn málinu, lögfræðingar mættu í sjónvarpssal og talað var um stjórnarskrárbrot.

Nú er ,,allt annað uppi á steinhringnum" eins karlinn sagði svo skemmtilega um árið. Það virðist ekki vera sama hver segir sannleikann.

Kveðja að vestan Wink 


Ég styð hinn heiðvirða dugnaðarmann Jón Bjarnason í 1. sæti á lista VG.

Nú þegar forval er í flokkunum og skráðum félögum gefst kostur á að kjósa þá sem þeim hugnast, hljóta þeir að þurfa að kynna sér hver stendur fyrir hvað. Það gæti reynst þrautin þyngri nema menn geri sér sérstakt far um það skoða málin og/eða hafi verið þeim mun duglegri að fylgjast með bloggi og fréttum á hinum ýmsum netmiðlum landsins, því ýmsir nýir frambjóðendur eru að láta til sín taka í tilvonandi kosningum.

En því nefni ég þetta að um leið og kröfur eru gerðar um að kjósendum megi raða á listana í Alþingiskosningum, t.d. á þeim lista sem kosinn er (x-að hefur verið við), þá verða menn að vera með á hreinu hvernig þeir vilja raða mönnum niður eftir númerum, þ.e. í fyrst, annað o.s.frv. 

Eins mikið og ég vona að kosningalögum verði breytt þannig að af þessu verði, þá vona ég líka að kjósendur sýni það í verki að þeir kunni að meta slíkt og notfæri sér þennan möguleika. Þannig getum við látið raddir fólksins tala beint og haft áhrif á val til Alþingis.

Persónulega er ég búinn að reyna að fylgjast náið með hverjir eru að bjóða sig fram, bæði í þeim flokki sem ég styð, sem og öðrum. Þar er margt frambærilegt fólk á ferðinni, enda ekki vanþörf á því þar sem margir Alþingismenn eru að hætta núna. Það er því ekki rétt að engin endurnýjun eigi sér stað, þótt margir reynsluboltar ætli líka að halda áfram, enda byði ég ekki í það ef allir væru nýir á Alþingi, nóg hefur nú vitleysan verið.

Persónulega styð ég hinn heiðvirða reynslubolta og dugnaðarþingmann Jón Bjarnason í 1. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi. Þó svo minn stuðningur vegi ekki þungt, tel ég víst að hann skipti máli.

Kveðja að vestan Wink


Ögmundur hlustar á heimamenn!

Þær fyrirætlanir fyrrverand heilbrigðisráðherra að sameina heilbrigðisstofnanir á Patreksfirði og Ísafirði hafa verið dregnar til baka af Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra, enda voru þær óraunsæjar.

Þegar málin eru skoðuð, hefur þessi sameining í raun ekkert annað í för með sér en aukinn kostnað íbúanna í Vesturbyggð, minni þjónustu, töpuð störf og stóraukin ferðalög, en á það ber einnig að líta að þessi leið úr Vesturbyggð á Ísafjörð er milli 140 - 170 km, allt eftir því hvaðan er farið, og svo eitt aðal atriðið, að leiðin eru ófær 9 mánuði á ári.

Ögmundur hefur skoðað málið og rætt við heimamenn um hvernig þessu verður best háttað. Og viti menn, hann hlustar og tekur ákvörðun í samræmi við óskir heimamanna. Betra væri að fleiri gerðu það!


Getur það verið?

Getur það verið að gengið sé að styrkjast? Getur það verið að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sé að tala vð Steingrím J. og ríkisstjórnina? Getur það verið að styrivextir munu lækka? Getur það verið að málin séu smám saman að lagast?

Getur það verið að Sjálfstæðisflokknum hafi ekki tekist að fokka þessu öllu upp með upphrópunum?

Já, það getur verið.

Getur það verið að ég fái niðurfellda persónulega ábyrgð á lánum sem ég hef tekið?

Nei, það getur ekki verið!

Er bara sanngjarnt að ég borgi það sem ég hef fengið lánað?

Já, líklegast!

Ég bara spyr: Hvar er meðalhófsreglan, sama skal yfir alla ganga gagnvart lögum o.s.frv.?

 


Steingrímur rólegur, alveg salla rólegur1

Mér finnst svo skondið að hvað það fer í taugarnar á hægrimönnum að Steingrímur skuli ekki slíta samningnum við Alþjóða gjaldeyrisstjóðinn.

Steingrímur er ekki einn í ríkisstjórn. Þó svo VG hafi gert athugasemdir við þann samning og verið á móti því að sú leið yrði valin fyrst, þýðir það ekki að þeir ætlist til þess að samningnum verði rift. Hins vegar er ekkert athugavert við að reynt verði að ná betri samningum við þetta apparat. Það er jú altént Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sem heimtar háa stýrivexti og ætlar með því alveg að drepa íslensk fyrirtæki og heimili.

Hver græðir á háum stýrivöxtum?

Jú, þeir sem eiga peninga í bönkum. Og hverjir eiga peninga í bönkum?

Ekki almenningur á Íslandi, því útrásarvíkingarnir hirtu það allt og skelltu þjóðinni á afturendann, enda var lagaumgjörðin hönnuð í þeirra þágu. Og hverjir sömdu lögin? Þeir sem réðu síðustu 18 ár.

Það er með ólíkindum að hægrimenn hafi á móti því að Steingrímur semji við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Enda hafa þeir ekkert á móti því í raun, þeir eru bara svekktir yfir því hvað hann er snjall. 

Hann breytti ekki ákvörðun Einars K. um hvalveiðar, en setti fyrirvara og ætlar að ná betri samningum við gjaldeyrissjóðinn. 

Er þetta ekki nákvæmlega það sem þarf við núverandi aðstæður?

Það fer ótrúlega í taugarnar á hægrimönnum að Steingrímur er rólegur og yfirvegaður í sínum ákvörðunum. Þeir bjuggust jú ekki við því, er það?

Og þannig eru nú flestir ráðherrar VG, alveg salla rólegir og vinna og vinna og taka á málum og koma hlutum í framkvæmd. Svo mikið, að enginn verður var við Össur og varla virðist Samfylkingin vera í þessari ríkisstjórn, nema Jóhanna, enda er hún náttúrulega svo samfélagslega sinnuð að það jaðrar við VG.

En það telst að sjálfsögðu henni til tekna. Og feginn er ég að ,,hennar tími kom" og það á hárréttum tíma.


Partý prímatanna!

Nú er Mogginn farinn í hendur ,,einhverra sem eiga peninga". Ekki erlendra aðila, en líklega komnir í hendur íhaldsamra aðila, eins og nýi eigandinn lýsti yfir. Erlendir fjárfestar eru byrjaðir að mæta til landsins til að skoða uppboðshaugana, en innlendir aðilar, í hverra umboði maður ekki veit, láta ekki að sér hæða.

Mogginn var seldur hlutafélagi með skrítnu nafni. Forsvarsmaður þess félags mætti í viðtal í sjónvarpið í kvöld.

Hann er að mínu viti, ásamt mörgum öðrum, meðal annars erlendir fjárfestar, einn af þeim sem eiga fast boð í partý prímatanna, en það er einhvers konar félagsskapur sem á eitt sameiginlegt, en það eru peningar. Þar gildir lögmál peninganna og ekkert annað skiptir máli. Ég samdi fyrir einu og hálfu ári lítið ljóð sem ég kalla Partý og er um nákvæmlega þetta.

Í partýi prímatanna

eru pælandi aurasálir einir gesta.

Í partýi prímatanna

er flæðandi andlaus peningavelta

Í partýi prímatanna

mega þeir ríkustu einir gelta.

 

Í partýi prímatanna

eru verðleikar settir á ís.

Í partýi prímatanna

eru þjóðir settar á hausinn.

Í partýi prímatanna

er tilfinningasnauð per exelans.

 

Í partýi prímatanna

eru plön um gereyðingu.

Í partýi prímatanna

er perulagað svartnætti.

Í partýi prímatanna

er reykur frá bönnuðum vindlum.

 

Í partýi prímatanna

sitja prúðbúnir þrælar egósins.

Í partýi prímatanna

er fróun óþarfans í algleymi.

.....Og  partý prímatanna

er leynilegt.

Þannig fannst mér það þá og þannig finnst mér það nú.


Fer fram á að minni persónulegu ábyrgð verði aflétt!

Það var merkilegt að hlusta á fréttirnar á Stöð 2 áðan.

Menn taka lán og ákveða svo að persónulegri ábyrgð þeirra sjálfra, ásamt vinum og vinnufélögum, sé aflétt af lánunum. Bara lán tveggja bankastjóranna sem þeir afléttu persónulegri ábyrgð á eru að upphæð 15 milljarðar. FIMMTÁN MILLJARÐAR KRÓNA! Sparnaðurinn sem þarf í heilbrigðiskerfinu eru 2,6 milljarðar.

Jú, þeir voru að vísu bankastjórar, en mér finnst með ólíkindum að þetta sé yfirleitt hægt. Getur bankastjórinn minn tekið þá ákvörðun að mín ábyrgð á þeim lánum sem ég hef tekið verði aflétt? Ef svo er þá fer ég hér með fram á það, bara af því að ég er jú samlandi, bý í grenndinni og er yfir höfuð jákvæður gagnvart bankanum og... hef stuðlað að vexti bankans árum saman með því að vera með yfirdrátt og lán, þó svo að ég hafi asnast til að borga þetta niður í gegnum árin. Þetta getur varla verið neitt mál, þar sem núllin á minum lánum er hægt að telja á annarri hendinni.

Það er ekki oft sem ég verð agndofa yfir innlendum fréttum, en það gerðist í kvöld.


Utan flokka, skipta um flokk, hætta, kenna öðrum um!

Það hver stórfréttin á fætur annarri, annan hvern klukkutíma.

Nú er Kristinn H. Gunnarsson búinn að segja sig úr Frjálslyndaflokknum og er nú utan flokka fram að næstu kosningum. Eitthvað segir mér að hann ætli að bjóða sig fram í hinum nýja flokki með Bjarna Harðarsyni. Hann klikkar ekki á því að vera óþekkur og óútreiknanlegur, þó svo ég hafi numið í nokkrum ræðum hans undanfarið að eitthvað væri í bígerð. Kiddi er alltaf hressilegur! Vonandi ýtir Bjarni Harðar ekki aftur á ,,send" í tölvunni fyrr en hann er búinn að ákveða hverjum hann ætlar að senda ,,leynipóstinn".

Og Árni Matthíesen að hætta. Já, það eru líka tíðindi, en fyrir mig skiptir það minna máli.

Og svo er það nú rúsínan í pylsuendanum, er Höskuldur stígur í pontu á Alþingi og kennir ,,deilum um völd á Alþingi" um hrunið. Annað hvort er hann í meiri háttar afneitun, eða þá að einhvers konar Alzheimers hefur tekið sér tímabundna bólfestu í honum. Allir sem það vilja, vita að Framsókn átti risaþátt í því að koma okkur á kaldann klakann með sinni ofur-hægristefnu og hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna og allri lagaumgjörð sem að því laut. 

Já, maður bíður spenntur næstu frétta af Alþingismönnum.


Heimilin eiga að vera friðhelg!

Af öllu því sem Davíð Oddson sagði í Kastljóssþættinum, en sumt af því var nú ansi merkilegt, þá hjó það mig mest að maðurinn fái ekki frið á heimili sínu. Erum við svo skyni skroppnir Íslendingar að við erum farin að ráðast að heimilum fólks. Að mínu viti er ekkert sem afsakar slíka hegðun.

Það er eitt að vera pólitískur andstæðingur einhvers og ræða málin, jafnvel mótmæla, en að ráðast að heimili einhvers, hvort sem það eru þingmenn, forsvarsmenn fyrirtækja eða stofnana, er óafsakanlegt og hreint út sagt viðbjóðslegt. Heimili manns er friðhelgt. Líka Davíðs Oddsonar!

Ég hvet alla Íslendinga til að sameinast um að fordæma slíkt athæfi.


Tungumálaörðugleikar?

Það er ljóst að bloggheimar bregðast hratt við, því þegar rangt er haft eftir íslenskum ráðherra í erlendu blaði, stökkva Sjálfstæðisþingmennirnir og síðan allir í bloggheimum eftir spýtunni sem Sigurður Kári kastar og hamast út af máli sem ekki er til.

Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að sækja ekki rétt okkar. Þetta var bara misskilningur í Sigurði Kára.

Því segi ég eins og ágætur skólaliði sagði þegar allt ætlaði úr böndunum: ,,Róa sig, róa sig!"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gústaf Gústafsson
Gústaf Gústafsson
Áhugamaður um stjórnmál, tónlist, íþróttir og heiminn almennt.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband