24.2.2009 | 12:16
Leikfléttur Framsóknar!
Einhvern veginn rennir manni í grun að þarna séu fingraför Alfreðs nokkurs að koma í ljós, þegar hver leikfléttan af annarri birtist þjóðinni frá hendi Framsóknar. Alfreð er öllum hnútum kunnugur og hefur marga fjöruna sopið og þekkir flestar pólitískar fléttur. Kunnugir telja sig hafa séð skugga hans bregða fyrir á ýmsum mikilvægum pólitískum stöðum. Ja, ef skórinn passar........!
Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn gætu hoppað saman um þessar mundir, eftir að Jón Magnússon stökk svo snilldarlega fram til forstíðar, en hræddur er ég um að sú stutta sambúð myndi kosta Framsókn það eina líf sem hún á eftir.
Kannski er það bara það besta.
24.2.2009 | 09:08
Tímasetningin hrein snilld!
Þegar maður skoðar nefndir Alþingis og hverjir sitja í þeim, verður maður að viðurkenna að tímasetning Jóns Magnússonar (í viðskeiptanefnd) með að fara í Sjálfstæðisflokkinn var náttúrulega snilld. Með því þurfti ekki nema einn til að stöðva Seðlabankafrumvarpið. Og þá hlaut næsta skref að vera að ná a.m.k. öðrum Framsóknarmanninum yfir á hægrihliðina. Og Höskuldur var greinilega sá sem beit á agnið, því annars hefðu Sjálfstæðismenn ekki lagt fram tillöguna um að fresta þriðju umræðu þar til nefndarálit Evrópusambandsins bærist. Eins og það sé eitthvert aðal atriði.
Og það verð ég að segja að ekki var málflutningur Höskuldar í Kastljósinu upp á marga fiska. Það var næstum eins og kamel-ljónið Finnur Ingólfsson væri mættur á svæðið. Maður fékka bara hroll.
En tímasetningin hjá þeim Jóni og Höskuldi er snilld og getur orðið til þess að allt fari upp í loft, ríkisstjórnin ráði ekki við að koma málum í gegn og Davíð sitji áfram. Nú vantar ekkert nema að Höskuldur segi sig úr Framsóknarflokknum og skoppi yfir í Sjálfstæðisflokkinn.
23.2.2009 | 14:06
Framsókn greinilega opin í báða enda ennþá!
Er nú svo komið að Framsókn getur ekki staðið við ,,samkomulagið" við stjórnarflokkana?
Getur það verið satt að ,,gömlu" flokkseigendurnir séu komnir með krumlurnar í málin og farnir að spilla því að málin nái fram að ganga? Það kæmi manni svo sem ekkert á óvart, að Halldór Ásgríms og Finnur Ingólfs vildu hjálpa Davíð svolítið. Þeir eiga honum ekkert smáræði að þakka.
Það er annars með ólíkindum að ekkert skuli heyrast með Samvinnutryggingasvindlið. Það voru nú ekki nema 6 milljarðar sem þar voru í spilinu.
21.2.2009 | 01:22
Gullmolar græðginnar!
Gullmolum græðginnar eru engin takmörk sett. Hvort sem á að kaupa eða selja.
Búandi úti á landi verður maður ,,aldeilis" var við hækkanir á ,,öllu", sama hvað það er. Það sem kostaði mig 6.000 fyrir jól, kostar nú 10.000.
Í dag er ástandið nákvæmlega eins og þegar núllin voru tekin af krónunni. Það sem kostaði þá 150 krónur, kostaði bara 3 krónur eftir breytinguna. Og neytendur syntu ánægðir um kaupmmanna- og /eða bankaheiminn, haldandi að nú væri allt í lagi. ASÍ fattaði ekki málið, foretinn sagði ekkert, stjórnarandstaðan gat ekkert, búsáhaldabyltingnin var ekki fædd. Ekkert gerðist nema að við bara borguðum það sem upp var sett.
Hey, enda var allt í lagi, ein íslensk króna, var jöfn einni danskri. En það var á síðustu öld!
Þá sögðu yfirvold að ef allt yrði sem ætlað væri, myndi .......og ef.......myndi......allt verða eins eftir 10 ár.
hHað þýddi breytingin? 150 krónur hefði átt að vera 1,50 krónur, en varð að 3 krónum, eða 300 gömlum krónum, þ,.e 100% hækkun. En af því að núllin fóru, þá fattaði enginn hvað var í gangi.
Nú er aðferðin önnur. Við erum aftir rænd í björtu, en með annarri aðferð og okkur talin trú um að það sé eitthvað sem við verðum að láta yfir okkur ganga og að við höfum jafnvel stuðlað að því, tekið þátt í því, að því að við tókum lán, frömdum viðskipti, reyndum að vera til.
Nei, takk.
Ekki þá, ekki nú!
Allar röksemdir sem kenna almenningi um, eru lygi. Það er svo einfalt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2009 | 21:54
Lítið leggst fyrir kappann!
Leggst nú lítið fyrir Vilhjálm Egilsson.
Allar viðvörunarbjöllur hringdu hjá mér þegar RÚV sýndi viðtal við kappann í kvöld. Þar næstum heimtaði hann að erlendir kröfuhafar fengju íslensku bankana upp í krófurnar, þó svo það sé búið að færa fyrir því gild rök, að því lengur sem við þraukum og borgum af lánum, því verðmeiri verða bankarnir, eignir þeirra erlendis og möguleikarnir til að standast kreppuna og komast út úr henni án þess að íslenska þjóðin gjaldi þess í hæsta máta.
Rök hans um að okkur vanti erlendan gjaldeyri til innflutnings í framtíðinni standast engan veginn. Í fyrsta lagi er til ,,gomma af gjaldeyri í Seðlabanka Davíðs Oddssonar sem hægt er að beita ef í harðbakka slær. Í annan stað er eina leiðin til að við verðum virt viðlits í viðskiptaheiminum, að við séum hörð í horn að taka, gerum kröfur sjálfum okkar til handa, kröfur sem sýna fram á að við gerum okkur grein fyrir hver staða okkar er, staða viðsemjenda okkar er og að við viljum greiða það sem okkur ber, en ekki það sem okkur ber ekki að greiða.
Enginn ber virðingu fyrir þeim sem láta kúga sig og borga annarra skuldir. Trúverðugleiki Íslands er farinn fyrir sukk nokkurra uppriðla sem bæði Davið Oddsson, Hannes Hómsteinn, Halldór Ásgríms, Ólafur Ragnar og allur Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann lagði sig studdi, þar á meðal Vilhjálmur Egilsson. Undanskilinn er þó Pétur Blöndal sem stundum röflaði, enda er hann óþekki sjálfstæðismaðurinn. Reyndar sá eini sem virðist sjálfstæður, nema honum sé att á forina eins og Halldóri nokkrum Blöndal, fyrrverandi forseta Alþingis, sem reglulega var beitt í alls kyns rugli, þegar þurfti að leiða athyglina frá því sem stjórnin var að gera.
Við eigum ekki að semja frá okkur hlutina, heldur eigum við að gera kröfur um sanngirni og meðfærni, sem hentar íslensku þjóðinni nákvæmlega núna. Okkar verðmæti er okkar eigið mat og við verðum að gera þá kröfu til þeirra sem semja fyrir okkar hönd að þeir telji Ísland, Íslendinga og framtíðina þess virði að semja.
Það þýðir ekki einangrun, eins og sumir eru að gera skóna. Heldur að við gerum kröfur til tilvistar, réttar og viðurkenningar.
Heimsklúbbur prímatanna sem gerir atlögu að íslensku þjóðinni nú veit þetta vel. Þeir bara trúa ekki að partýið sé búið. Og þeim er sagt af meðlimum íslenskudeildar alþjóðlega prímataklúbbsins að þetta sé ekki búið, heldur verði að láta tímann líða, því þetta muni lagast. Og þeir hafa rétt fyrir sér, eins og skoðanakannanir sýna.. Enda er nú svo komið að Vilhjálmur Egilsson, forsprakki andvinnurekenda minnist ekki lengur á stýrivexti, heldur er nú aðalatriðið að koma bönkunum í einkaeigu erlendra aðila.
Hvernig stendur á því? Hmmmmm...........
20.2.2009 | 14:15
Réttlæti Hannesar!
Það er makalaust að lesa nýjustu skrif Hannesar Hólmsteins, þar sem hann reynir að grafa undan Jóhönnu og Có.
Vissulega fékk Jóhanna dóm, þ.e. verknaður hennar var talinn fara á skjön við góða stjórnsýslu vegna of stutts andmælaréttar. Vissulega átti andmælatíminn að vera lengri, en launakröfurnar sem gerðar voru stóðust ekki sanngirnismat, og að lokum sparaði Jóhanna ríkinu helling af peningum með þessu.
En það var nú þannig með Geir og Halldór Ásgríms fyrir nokkrum árum, að þeirra athafnir varðandi sölu á Íslenskum aðalverktökum voru dæmdar ólöglegar af Hæstarétti. Ekkert heyrðist þá í Hannesi, né báru þeir neina ábyrgð ráðherrarnir, Geir þáverandi dómsmálaráðherra og Halldór þáverandi utanríkisráðherra. Þeir bara sátu og þögðu þunnu hljóði.
Hvað varðar Ólaf forseta, er bara gaman að fylgjast með Hannesi og öðrum fyrrverandi stuttbuxnapeyjum Sjálfstæðisflokksins æsa sig. Persónulega finnst mér að Ólafur ætti ekki að tjá sig jafn mikið og hann gerir um ýmsa hluti, en svona er hann bara þessi forseti okkar.
En ein bestu skemmtun vetrarins er myndbandið með Hannesi Hólmsteini þar sem hann útlistar útrásinu fyrir tveimur stelpuspyrlum á Stöð 2, hvar hann dásamar útrásina og yfirtöku frjálshyggjunnar á ,,lötu fé" sem enginn á, eins og hann orðar það, t.d. lífeyrirsjóðunum. Þar skaut hann sig og alla sína ofurfrjálshyggjufylgjendur í fótinn. Og hann endar á því að segja: ,,Og svo fóru þeir með allt þetta fé í úr landi", og brosti eins og sæt sveitapía sem hefur lokið mjöltum.
Alltaf gaman að Hannesi. Hann er spes.
20.2.2009 | 08:40
Ný framboð, 5% þröskuldurinn.
Hvaða áhrif mun það hafa að ný framboð koma fram á sjónarsviðið í næstu kosningum? Hvað flokkar munu tapa fylgi vegna þessa?
Á meðan að 5% þröskuldurinn er við lýði er töluverð hætta á því að atkvæði hreinlega tapist, nýtist ekki, eins og gerðist síðast. Spurningin er því kannski helst, hver tapar á því og hver græðir?
Það er tvennt sem þarf að laga strax varðandi kosningarnar, en það er að hægt verði að númera frambjóðendur á listum framboðanna og að afnema 5% þröskuldinn. Annars verður allt eins og áður.
19.2.2009 | 15:36
Frostbitnar alþýðukinnar.
Nú skiptast á miskaldir frostakaflar, hvar allt frýs og verður ofurhált svo göngutúrar eru næstum óhugsandi. Næstum, segi ég, því maður getur náttúrulega klætt af sér kuldann, en það er alltaf svolítið erfitt að klæða af sér hálkuna. Því verður maður að fara varlega og athuga hvert spor, því ekki vill maður ,,ganga fótbrotinn á báðum heim, eins karlinn sagði um árið.
Já, það er frost á landinu, frost í efnahagsmálunum, frost í stjórnmálunum og frost í sölu fiskafurða erlendis. Það er því erfitt að vera ,,ferskur í slíku árferði. En nú er svo komið að landsins lýður er búnn að fá nóg af frosthömlum alls konar og heimtar ferska pólítíkusa, ferska og jafnvel nýja banka, ferskan seðlabankastjóra, nýjan og ferskan forseta, nýja og ferska aðferðafræði við kosningar og nýjan og ferskan gjaldmiðil.Ástæðan vegna þess að flokkarnir eru algjörlega frosnir í sínu gamalgróna fari, seðlabankastjórinn frosinn í fortíðarstólnum, gegni krónunnar í djúpflotsfrysti, bankarnir frostsprungnir niður í mínus 1000 milljarða, orðagjálfur forsetans hefur breyst í undarlega íspinna sem fara óþýddir og misskildir til útlanda og kjörseðlarnir eru klakabundnir við gamla frambjóðendur, hverra þor virðist hafa frosið fast í forfeðrum þeirra á landnámsöld.
En til þess að þetta geti breyst þarf þíðu, eina alls herjar frostleysu, bæði í samskiptum stjórnvalda við al-,,þýðu manna, flokkanna við kjósendur, foretans við Dorrit, sendiherra og erlenda fréttamenn og bankanna við fyrirtæki. Og þegar allt þetta hefur gerst, getur al-þýðan valið sér Al-þingismenn. Þá fá kannski Al-þingismenn hinir nýju að vinna að framtíð lands og þjóðar með velþóknun al-mennings. En eins og sést á upptalningunni þarf töluvert til að þetta geti orðið. Fer ekki bráðum að vora?
19.2.2009 | 14:00
Virk ráðfrú!
Ég er alveg himinlifandi með hana Katrínu, hún tekur rétt á málunum.
Listaverkin í bönkunum (sem voru gefin), lánasjóðurinn og tónlistarhúsið. Allt þörf mál að sem kippa þarf í liðinn. Gott hjá þér Katrín!
19.2.2009 | 10:49
Persónukjör!
Ég einfaldlega trúi því ekki að það sé ekki hægt að koma á persónukjöri í næstu kosningum!
Málið er einfalt, flokkarnir geta raðað eins og þeir vilja, en kjósendur geta sett númer fyrir framan nöfnin. Ef lagabreytingu þarf, er bara að sameinast um það og kýla þetta í gegn.
Þetta er lágmarks - fyrsta skref í því að kjösendur geti í alvörunni valið hverjir sitja á þingi.
Það er nefnilega þannig að þótt menn séu kannski fylgjandi flokkum, vilja þeir kannski sjá uppröðunina öðruvísi. Þeir flokkar sem ekki vilja þetta bera nákvæmlega enga virðingu fyrir kjósendum.
Og kannski ættu lögin að vera þannig að þeir flokkar sem vilja leyfa kjósendum að raða, geti gert það, en hinir sem ekki vilja það geri það ekki. Þannig yrði það opinberað fyrir kjósendum hverjir bera virðingu fyrir lýðræðislegu vali til Alþingis.
Hollt er muna orð gamla Færeyingsins sagði alltaf: ,,Það er alltaf nógur tími gamli, þú verður bara að gefa þér hann".
Kveðja að vestan
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar